Tónleikasýning AC/DC


Rigg Viðburðir í samvinnu við Jagermeister og Tuborg Gold kynna:

AC/DC, hinni goðsagnakenndu hljómsveit, sem á mest seldu rokkplötu allra tíma, Back In Black, og hátt í 200 milljón plötur seldar um heim allan á rúmlega 40 ára ferli, verður gert hátt undir höfði í glæsilegri tónleikasýningu í Eldborg laugardagskvöldið 30. apríl.

Í sýningunni fá aðdándur sveitarinnar að heyra lög eins og Back in black, Thunderstruck, You shook me all night long, Highway to hell, Hells bells, Let there be rock og fleiri stórsmelli í glæsilegri umgjörð.
Það er valinn maður í hverju rúmi í þessari mögnuðu tónleikasýningu en hljómsveitina skipa þaulvanir og þéttir íslenskir rokkarar:

Söngvarar:
Stefán Jakobsson
Dagur Sigurðsson
Hjörtur Traustason
Gítar: Ingó Geirdal (Dimma)
Trommur: Arnar Gíslason (Dr. Spock, Mugison, Ensími)
Bassi: Guðni Finnsson (Dr. Spock, Mugison, Ensími)
Gítar: Franz Gunnarssson (Ensími)
Raddir: Heiða Ólafsdóttir & Alma Rut
Ljósahönnun: Helgi Steinar Halldórsson
Hljóðhönnun: Jóhann Rúnar Þorgeirsson
Sviðsetning: Rigg Viðburðir

Meira um AC/DC:

Með einfaldleikann að vopni og eldmóðinn til að leggja heiminn að fótum sér, héldu bræðurnir og gítarleikararnir Angus og Malcolm Young af stað í ferðalag sem hefur legið um gjörvalla veröldina, allar götur síðan árið 1973 þegar AC/DC var stofnuð í Sydney í Ástralíu.
Talsverðar mannabreytingar áttu sér stað fyrst um sinn en með tilkomu trommarans Phil Rudd, bassaleikarans Mark Evans og söngvarans Bon Scott, varð AC/DC loks tilbúin í komandi átök. Segja má að sveitin hafi vart slegið slöku við næstu árin; stanslausar tónleikaferðir á milli þess sem menn unnu dag og nótt í hljóðverinu.
Uppskriftin var einföld: auðmelt þriggja hljóma rokk með tvíræðum textum um partíhald, drykkju og dömur.

Frammistaða AC/DC á tónleikum var með eindæmum öflug. Angus, íklæddur skólabúningi, þeyttist sviðsenda á milli. Bon Scott heillaði viðstadda með sterkri nærveru sinni svo um munaði. Hann bjó yfir kraftmikilli rödd, var lunkinn textasmiður og það var honum algjörlega í blóð borið að skemmta fólki.
AC/DC gerði sex plötur með Bon Scott innanborðs og aðdáendahópurinn óx með hverri útgáfu. Lög á borð við TNT, Whole Lotta Rosie, Let There Be Rock og Dirty Deeds Done Dirt Cheap fönguðu huga rokkunnenda vítt og breitt og allt stefndi í rétta átt.

Barningur áströlsku rokkarana uppá toppinn hélt áfram en átti eftir að taka sinn toll. Fram til þessa hafði líferni Bon Scott ekki haft áhrif á frammistöðu hans með AC/DC.
Vinsælasta plata sveitarinnar með Scott, meistarastykkið Highway To Hell, reyndist svanasöngur hans með AC/DC en Bon Scott lést úr drykkju þann 19. febrúar árið 1980 í London á Englandi.

Þrátt fyrir missinn héldu Young-bræður ótrauðir áfram. Englendingurinn Brian Johnson var ráðinn til leiks og aðeins hálfu ári eftir fráfall Scott kom hin magnaða Back In Black út og festi AC/DC endanlega í sessi í hópi stærstu rokksveita heims.
Velgengni AC/DC hélt áfram á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Herbragð Malcolm Young virkaði greinilega sem skyldi frá ári til árs; að hnika ekki út frá stefnunni.
Platan The Razor’s Edge frá árinu 1990 bætti nýrri kynslóð við í aðdáendahóp AC/DC og spilaði risasmellurinn Thunderstruck þar lykilrullu.

Um miðjan tíunda áratuginn var Phil Rudd ráðinn á ný til að lemja húðirnar eftir 11 ára fjarveru og klassíska uppstilling AC/DC því sameinuð á ný.Plöturnar Ballbreaker, Stiff Upper Lip og Black Ice báru allar sterkan keim af hinum sígillda hljóm sveitarinnar sem skipaði svo stóran sess í hugum og hjörtum unnenda AC/DC.
Aðdáendahópurinn tók að vaxa á nýjan leik og velgengnin náði ákveðnu hámarki á Black Ice tónleikaferðinni þar sem AC/DC tróð upp fyrir alls fimm milljónir manna eftir að hafa selt átta milljónir eintaka af fyrrnefndri plötu.

Síðustu misseri hafa áföll dunið yfir AC/DC. Malcolm Young er óvinnufær eftir að hafa greinst með heilabilun og Phil Rudd fékk fangelsisdóm og var látinn fara úr sveitinni. Þessi áföll hafa þó ekki stöðvað Angus Young í að gleðja rokkþyrsta tónlistarunnendur þessa heims. Bróðursonur Angusar – Stevie Young – var ráðinn í AC/DC í fjarveru frænda síns og platan Rock Or Burst leit dagsins ljós árið 2014. Með trommarann Chris Slade sér til fulltingis hafa Angus, Brian og félagar í AC/DC verið á stanslausu tónleikaferðalagi síðustu tvö ár þar sem hver og einn einasti miði hefur selst.

En hví skyldi AC/DC halda þessum barningi áfram? Brian Johnson kann svar við því: „Við erum að uppfylla ósk Malcolm Young. Hann vildi að við héldum áfram að búa til tónlist.“
Og það heldur sannarlega áfram að virka. Veröldin virðist aldrei fá nóg af AC/DC.

< < Til Baka

Fréttir

Til heiðurs George Michael

March 30, 2018

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar stórskotalið Rigg viðburða heiðraði minningu George Michael í Eldborg með glæsilegum...

Friðrik Dór í Eldborg 9. september

June 1, 2017

Það er með mikilli ánægju sem Rigg viðburðir kynna samstarf við poppstirnið Friðrik Dór um tónleika í Eldborg laugardaginn...

Bestu lög Vilhjálms-Aukatónleikar

February 14, 2017

Friðrik Ómar flytur perlur Vilhjálms ásamt gestum og 16 manna hljómsveit undir stjórn Karls Olgeirssonar í glæsilegri umgjörð. Björt...